news

Þriggja vikna jógalota á Sóla ❤️

01. 09. 2021

Vorið 2020 sótti Marta Jónsdóttir í samvinnu við Leikskólann Sóla um styrk í Þróunarsjóðs leik- og grunnskóla Vestmannaeyjabæjar fyrir verkefnið Tónlistarkennsla og jógaiðkun, hlaut hún styrk sem nýttur var til þess að gera 12 vikna kennsluáætlun í jógaiðkun. Markmiðið með þessum jógastundum samhliða því að efla alhliða hreyfiþroska barnsins er að kenna þeim aðferðir til að kyrra hugann og ná þannig betri einbeitingu og sjálfstjórn. Við gerð þessara stunda studdist Marta aðallega við efni úr bókunum; Snerting, jóga og slökun handbók fyrir leik-og grunnskólakennara og Childplay Yoga, en einnig nýtti hún efni sem hún hefur kynnst á námskeiðum sem og reynslu sína af kennslu ungra barna.

Snerting er mikilvæg í daglegu starfi, hún vinnur á móti streitu en talið er að streituhormónið Kortisól minnki við nudd og snertingu og hafi mjög góð áhrif á einstaklinga með hegðunarerfiðleika. Mikilvægt er að bjóða börnunum snertingu en virða neiið þeirra ef þau vilja hana ekki. Snerti leikir eru góðir til að vinna með snertifælni. Í leikskóla er hægt að vinna með létt nudd/snertingu hvenær sem er yfir daginn, hvort sem er í skipulögðum stundum eða þegar órói hefur skapast í umhverfinu. Sól á bakið, klapp á axlirnar og strjúka koll eru dæmi um snertingar sem hægt er að nota til að skapa ró.

Á tímabilinu 6.- 23. sept ætlar Marta að prufukenna efnið sitt. Elstu tveir hóparnir fara þá 2 sinnum í viku í tíma hjá Mörtu með hópstýrunni sinni. Við vitum að börn vilja hafa reglu á hlutunum og því byrja og enda allar stundir eins og við gerum í hópatímum þ.e. velkomin í hópatíma … og takk fyrir hópatímann … . Tímarnir eru allir byggðir upp á sama hátt - upphitun - æfingar/leikir – slökun. Við byrjum smátt og bætum svo við eftir því sem stundum fjölgar.

© 2016 - Karellen